25 janúar 2007

Hér er ekkert að gerast...

Hef verið á moggablogginu og þessu núna í smá tíma og það er skemmst frá því að segja að umhverfið þar er mun betra... ætla því að setja þetta blogg hérna megin í smá pásu og skrifa á hinu blogginu sem er http://emmgje.blog.is/blog/emmgje/ síðan þegar það blogg svíkur mig þá kem ég kannski aftur hingað... en þangað til sjáumst á Moggablogginu...

Þá segir einhver, já loksins þegar ég kann á komment kerfið þá fer Búkolla á annan bás... hitt er samt einfaldara...

sjáumst :o)

24 janúar 2007

Ouchh...

Spurning um að fara í útflutning á nagladekkjum ? Annað tækifæri ?!?

Smá snjóföl og allir í Bandaríkjunum lenda í ruglinu...

23 janúar 2007

Er einhver með mér ???

Hér má örugglega finna eitthvað spennandi, ég meina þetta er tækifæri sem maður má bara ekki láta fram hjá sér fara... keilusalurinn er víst algjört æði, strætóskýli til staðar og við gætum haft frítt í strætó og allt, þetta gæti orðið svona Orange County Íslands... menn borga stórfúlgur fyrir að búa þar, því ekki hér ? Endilega gefið ykkur fram, áður en Baugur tekur þetta... hér er tækifæri!

Vel útbúinn draugabær til sölu

Annars fær hann Ármann Helgi frændi afmæliskveðjur dagsins, 17 ára töffari... nú gæti ég orðið verulega nastý móðursystir og sagt einhverjar krassandi sögur af honum sem litlum krúttlingi... en læt það vera. (hann les þetta ekki einu sinni þannig að það væri ekkert gaman )

Annars tókst mér að vera andvaka í nótt til klukkan 03... hefði ég vitað að leikurinn var endursýndur þá hefði ég getað sofnað yfir honum... nei í staðinn velti ég mér og bylti og pirraði örugglega prinsinn útí hið óendanlega, til að vakna við klukkugarminn kl 05:48 og fara í BootCampið og hlaupa móðuna frá mér... en hey við erum hálfnuð á því námskeiði, en ég stundi upp í morgun við 187undu magaæfinguna..."það er eins gott að við fáum almennilegt þvottabretti af þessu, eitthvað verðum við konurnar að græða á þessum æfingum"

Þið vitið að allt baulið í mér má einnig finna á síðunni minni á moggablogginu...
http://emmgje.blog.is/blog/emmgje/

21 janúar 2007

Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins

átti að vera auðveldi parturinn af áramótaheitinu mínu...sjá

http://emmgje.blogspot.com/2007/01/hi-strfenglega-leyndarml-heimsins.html

Nema hvað að eftir að við vorum skráð á Dale Carnegie í vinnunni þá hefur bæst við bókalistann sem ég þarf að lesa... Lífsgleði njóttu... Vinsældir og Áhrif.....Árangursrík ræðumennska.....Eldmóður (hið lítt þekkta leyndarmál velgengninnar)....Árangursrík frásögn.... og annað góðgæti, þannig að með þessum titlum þá verður kannski bara "easy" parturinn að "verða bara svo miklu betri manneskja" Það er nefnilega þannig að æsispennandi reyfarinn um spæjarann Stein Steinarr sem tekur sér far með skipinu Heimurinn og ræður þar ráðgátu um glæp ...er ennþá á hillunni fyrir ofan rúmið mitt og ég er komin á bls 49... Lélegt... eins og mér finnst gaman að lesa bækur, get hreinlega gleymt mér í góðri bók og gleymi að fara að sofa og allt. En hvenær á ég að lesa þessa góðu bók, núna þarf ég að lesa hinar til að fylgjast með í Dale'inu og svo er ég með svo mikla þörf til að bloggrónast og tjá mig að það er engu lagi líkt... og ekki les ég þessar bækur á meðan ég hangi á blogginu...Hvert er Heimurinn að fara ???

Uppskrift...

Sko á meðan einhverjir skrifa á blogginu sínu snilldarfærslur um heimsmál og pólitík þá hef ég hugsað mér að gefa ykkur lesendur góðir uppskrift af brauðrétt... Ekki er þessi brauðréttur bara ótrúlega góður heldur er hann fljótlegur og einfaldur.

Þú þarft í hann:

1 fransbrauð
1 dós grænn aspas
200 gr majónes
3 egg
200 gr rifinn ostur
100 gr skinka í strimlum

Aðferðin er svona:
Brauðið er skorið í tenginga, en skorpan er tekin frá. Safanum af aspasinum er hellt yfir brauðið. Í annari skál er majónesinu og þremur eggjarauðum blandað saman ásamt osti, aspas og skinku, þessu mauki er blandað við brauðið sem er búið að væta með aspassafanum muniði. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar í skál og þeim bætt varlega við brauðjukkið. Öllu hellt í eldfast mót, rifnum osti stráð yfir, bakað í 20-30 mínútur, eða þar til osturinn er bráðnaður.

Verði ykkur að góðu :o)

20 janúar 2007

Ræfill



<- Þetta er ég síðustu tvo daga...

Vaknaði snemma fimmtudagsmorgun, ekkert ofsalega hress, en kenndi því um að ég væri bara syfjuð, fór því í BootCamp dröslaðist í gegnum æfinguna, sem var by the way algjör killer... tókum vel á neðri hluta, eftir að hafa tekið vel á efri hluta síðast, enda má ekki skilja neinn útundan... eftir því sem leið á æfinguna langaði mig meir og meir til að skríða eitthvert út í horn og hverfa, úff hvað ég var þreytt... Dröslaðist í gegnum daginn á hálfum krafti, kom heim og það passaði, ég var orðin veik. Hiti og hálsbólga... Í gær var ég svo bara rúmliggjandi, hausverkur, ógleði, hiti, allur pakkinn ! Þannig að ekkert blogg... bara Ræfill.

17 janúar 2007

Aumur efrihluti


Jæja dagurinn í gær farinn að láta segja til sín, armbeygjurnar og magaæfingarnar í BootCampinu eru farnar að skila sínu, ég fer bráðum að líta svona út... en bara bráðum, það eru nú 4 vikur eftir...

Stóra snótin var alsæl með daginn í gær og þakka ég kærlega fyrir kveðjurnar sem okkur bárust á þessu bloggi og hinu líka, gaman að sjá gesti sem ég vissi ekki að væru að lesa baulið í mér, en sem mér finnast stórskemmtilegir bloggarar.

Ég var LEeEngi á leiðinni í vinnuna í morgun, en þið ? Fór með litlu snót í leikskólann og keyrði að venju inn Starengið, en átti ekki von á ÖLLUM þessum snjó... Yarisinn þessi elska stóð sig samt með miklum sóma og ullaði bara á stóru jeppana sem mættu okkur... gáfum bara vel í og svo bökkuðum og gáfum svo bara aftur vel í og dönsuðum Rúmbu alla leið inn í Starengið, hlökkuðum mikið til að dansa tilbaka en þá var búið að ryðja snjóinn á þessum stutta tíma þannig að við dönsum bara Rúmbu seinna...

Á þessum degi, 17 janúar, fyrir 3 árum þá dó tengdamamma eftir mjög stutt veikindi, hún náði þó að vakna á afmælisdegi nöfnu sinnar hennar Dóru og kveðja okkur öll (þó svo við vissum ekki að hún væri að kveðja, þá vissi hún það örugglega)
Hennar er sárt saknað og lifir sem ljós í minningu okkar.

16 janúar 2007

Hún á afmæli í dag...


Frumburður minn á afmæli í dag :o) 12 ára er hún orðin stúlkan... mikið líður tíminn fljótt, finnst eins og það hafi verið í gær að við vorum að rölta með barnavagninn í blíðunni í Danmörku...
Á meðan ég spriklaði í Boot Campinu þá vöktu Pabbinn og litla systir með söng og pökkum, seinna í dag verður svo nokkrum vinkonum boðið í Keilu og fjör. Góður dagur :o)
Til hamingju með afmælið elsku Dóra mín :o)

14 janúar 2007

Allt annað...og smá útúrsnúningur...

þegar ég byrjaði á þessu blogg dæmi þá var ég að forvitnast um hvernig svona væri uppbyggt, ekki það að ég ætlaði að fara að hella úr tilfinningum mínum á opnu vefsvæði, nei svo athyglissjúk væri ég ekki, bara sjá hvernig þetta kæmi út, gaman að byggja upp vefsíðu en spurning um framhaldið, (þið sem lesið eruð þá búin að fatta að ég er þrælathyglissjúk fyrst að ég er að hella úr skálum mínum hér á næstum hverju kvöldi) nema hvað að forvitnin hefur rekið mig á hverja síðuna á eftir annarri, jú sem sagt byrjaði á bloggar.is en eftir alltof margar bilanir og verulega mikla óþolinmæði gafst ég upp og setti upp þessa á blogspot.com, hér hef ég skemmt mér konunglega við að setja upp og breyta og bæta og svo hef ég tekið eftir því að margir eru farnir á svokallaða Moggablogg... og hvað geri ég ??? jebb komin með síðu á Moggablogginu, setti upp eina í gær og hef verið að föndra við hana. Nei ég ætla ekki að segja ykkur slóðina á henni alveg strax, bara svona að segja ykkur af þessu :o)
ps það skondna samt er að ég var varla búin að sleppa fyrstu færslunni þegar ég var komin með lesanda sem bauð mig velkomna og óskaði mér velfarnaðar, hehe það fannst mér sætt :o)

Hvað var svo gert í dag?

Jæja sunnudagur að kveldi kominn og ég sest við tölvuna til að blogga um daginn í dag... mikið dáist ég að þeim sem nenna að lesa þetta hjá mér...

Nema hvað, þetta leit út fyrir að verða heldur tíðindalaus dagur, jú bóndinn fór með verðandi nágranna uppí lóð þar sem verðandi hús mun rísa vonandi á þessu ári til að hæðarmæla, gengu þarna um með mælitæki og hræddu fólkið í Grafarholtinu svo mikið að ein fann sig knúna til að hringja og kanna þetta tiltæki, (reyndar var þetta móðir mín,,,) Ég veit ekki alveg hvernig þessar mælingar fóru fram, en einhverjar niðurstöður eru komnar og prinsinn situr núna við tölvuna (sko stóru tölvuna) og færir inn tölur og teiknar í gríð og erg.

Þegar hann kom svo vel útbúinn til okkar aftur þá hafði verðandi nágrönnum dottið í hug að nota þennan blíða dag í að fara og renna okkur á snjósleða, jibbý :o) ekki þó í Úlfarsfellinu heldur í Lágafellinu, keyrðum uppí Lágafellskirkju vel byrg af nesti og snjósleðum og renndum okkur í gríð og erg, þvílíkt gaman og held bara að blessuð börnin hafi líka notið dagsins...

Á leiðinni heim ákváðum við að róa gömlu hjónin í Grafarholtinu og kíktum til þeirra í kaffi, enda var boðið uppá vöfflur :o)

Núna er búið að baða yngri snótina og prinsinn búinn að fara yfir stærðfræðina með þeirri eldri.

Ég held að þetta hafi flokkast undir góðan dag.

13 janúar 2007

Villuráfandi sauðir

Fór í Hreyfingu í morgun, tók létta æfingu á fjölþjálfanum, en aðalatriðið var þó að fara í gufuna á eftir, mmmm ljúft og svo fékk ég besta kaffibolla í heimi á eftir hjá minni kæru Kristjönu sys (takk kæra sys sssmakk)

En það hefur ekkert með titil dagsins að gera... nei... Núna kemur það...fór með frumburðinum mínum í Smáralindina, erindið var að finna buxur á skvísuna og valdi hún Smáralindina til þess arna... ohhjæja Útsala... vill einhver segja mér hvernig maður ber sig að á svona útsölu ? ég er bara ekki að fitta þarna inn... sko ef ég sé eitthvað sem mér líkar þá er það ný vara og EKKI á útsölu... og það sem er á útsölu er vara frá því í hitteðhitteðfyrra og er SVO dödsmart í dag... eða ekki ! Við römbuðum þarna um eins og "allir saman nú" já villuráfandi sauðir :o) eina gleðin við Smáralindina var þegar við settumst niður og fengum okkur kaffi jah ég fékk mér kaffi og brauð, hún fékk sér heitt súkkulaði og köku, en við urðum nú að rembast við að kaupa buxur þannig að við reyndum ekki að glata tilefninu og enduðum á erindinu, já meira að segja tvennum buxum og ægilega fínu Puma belti... þessi elska fyllir 12 árin í næstu viku og það er verið að redda afmælisgjöfum frá ömmu, afa og afa. "mamma ég vil ekki vita allt sem ég fæ í afmælisgjöf"

Tengdapabbi var að fara frá okkur, hann var í mat (lambafillet og ýmislegt gott með) núna er verið að tjatta við hann á msn'inu, miðbarnið (prinsinn minn) fór til hans í dag til að setja það upp hjá honum, hann fékk beintengingu í jólagjöf og það er verið að henda honum inn í tuttugustuogfyrstu öldina svo um munar... en ég held að hann hafi bara gaman að þessu netdæmi :o)

En sem sagt laugardagskvöld... við vorum að fara með mikinn ljóðskap við matarborðið í kvöld og minntumst einnar góðrar:

"Helvíti bad veður í nótt
Fíra braggar fjúka upp
Æ dont nó
há meni pípúl dó"

11 janúar 2007

Boot Camp -dagur tvö


Vá og ég meina Vá !! komst að því að þriðjudagurinn var bara kynningarFUNDUR :o) Þetta var ótrúlegt púl í dag... byrjuðum á stigahlaupi, hlaupið 4 ferðir upp og niður stigana, þetta eru 6 hæðir (held að einhverjir hafi hlaupið fleiri ferðir, en ég fór 4 og fannst það alveg nóg) knúsuðum malbikið í bílakjallaranum í armbeygjum og allskynns æfingum, vorum þakklát fyrir að fá að hvíla ennið á marmarflísagólfinu í einhverjum frekar lúmskum æfingum og enduðum síðan á 600 magaæfingum (ekki prentvilla sexhundruð á það að vera) og þá máttum við fara í sturtu.
Það sést orðið langar leiðir hverjir eru í hópnum, það erum við sem erum með frekar skrítið göngulag og stynjum þegar við stöndum upp eða setjumst niður. Og þetta borgum við fyrir :o)
Þetta er rosalega gaman og þvílík hópefling, góð stemmning í hópnum núþegar :o) Í dag fengum við svo matardagbók og upplýsingar um hvað skuli borða og hvað er minna vinsælt... ég var með spínatlasagna í matinn í kvöld og fólkinu fannst það bara gott :o) allir græða...

09 janúar 2007

Geggjað

Vá hvað það var gaman í morgun. Tær snilld, allir vöðvaflokkar teknir í spæn og svo hlaupið inn á milli... hlakka bara til að fara aftur á fimmtudaginn :o) Góð tilfinning að vera komin af stað aftur, þetta hefði aldrei getað endað vel sú hála braut súkkulaðis sem ég var byrjuð að renna til á.
Síðan var kynningarfundur um Dale Carnegie námskeiðið sem hefst hjá okkur á mánudaginn, það verður líka strembið en örugglega gaman, þar sem ég hafði ein verið áður á svona námskeiði þá bað hún mig að vera aðstoðarleiðbeinandi, sagði strax já við því enda vil ég fá sem mest út úr þessu námskeiði... gráðug? :o)

Temmilega þreytt núna, var að koma úr vinnu, mikið að gera í dag þannig að ég sá að ég varð að sitja aðeins lengur ef að ég ætti að koma að borðinu mínu í einhverju skipulagi á morgun, en núna er ég að fara að elda ofan í flokkinn og svo verður örugglega tekið því með stóískri ró í kvöld. Hrísgrjón með vorlauk og kjúlli með brokkolí nammi namm

Vöknuð

Hey það tókst... ég er vöknuð (aðeins of snemma) og farin...

08 janúar 2007

Er þetta ekki magnað???

Éraðfaraðsofa... góða nótzzzz

Jæja allt virðist í góðu lagi...

Eftir að ég fór í internet options og strokaði út internet files þá gat ég kíkt á síðuna mína... samt alveg stórfurðulegt hehe. En fékk Gerðu til að setja inn komment :o)

Annars var þetta fínn dagur, þó ég væri með gleraugun. Fékk komment frá vinnufélögum sem hljómuðu á þessa leið... "þú virkar gáfaðari með gleraugun" "Þú ert svo greindarleg" "nei sko þú ert eins og kennslukona" (sem sagt gáfuleg ?innskot höfundar) "þú ert bara flott svona"... nema Ingibjörg Jenný hún kallaði bara yfir salinn "Lúði"
Ég sem sagt get gert ráð fyrir því að ég hafi verið temmilega heimskulega útlítandi síðustu tvö árin...

BootCamp á morgun klukkan 06:30... ég kvíði stórlega því að vakna svona snemma, eða eiginlega kvíði ég því að vakna ekki... sko klukkan 06:00 þá er NÓTT ! Halló...

Stal þessu vídeói af síðunni hennar Tinnu (sjá link til hliðar Tinna hennar Stefaníu :o)) Sorrý Tinna, þetta var bara of gott til að láta fara fram hjá sér...

Furðulegt

Ég virðist geta loggað mig inná bloggkerfið en ef að ég ætla að sjá bloggið mitt þá þekkir hún ekki þennan file og býður mér að vista ??? kemst inn á aðrar síður sem hafa kerfið blogspot.com, en ekki mína síðu... hmmmm
Kemst þá enginn inn á síðuna mína eða hvað ?
Hjálp!!!

07 janúar 2007

Ennþá skrítin

Möööhh er ennþá með skít í auga þannig að ég sé allt frekar skrítið og er skrítin, verð líklega með gleraugun á morgun líka, en svo vonandi ekki meir í bili...

Jólin eru komin í kassa, pakkaði þeim niður í dag og eldaði svo kótilettur í kvöldmatinn, nammi namm... byrja í átakinu á þriðjudaginn :o/

06 janúar 2007

Úmpalúmpinn ég...


Vaknaði í morgun með tvöfalt auga, komin með einhvern skít í augað og varð því að plokka linsuna úr auganu og vera með gleraugun í dag og á morgun og kannski hinn, en svo ekki meir, neita því alveg, ég er ekki þessi gleraugnatýpa, þau fara í taugarnar á mér... finnst ekki ljótt þegar aðrir eru með gleraugu, nei mér finnst ég bara skrítin með svona hlut framan í mér, verð eitthvað svo... æji skrítin, þannig að ég er ALLTAF með linsur, nema í dag og þá þurfti maður nátturulega að fara út meðal fólks... jamm

Dagurinn byrjaði á mælingunni... hún fór nokkurnveginn svona fram (munið að mér finnst ég skrítin með gleraugu) *mætti í hús Bootcampsins, þar mætti mér ungur myndarlegur drengur og segir hressilega, #hæ ég heiti (sorry man það ekki) en þú?
*María mumlaði ég, (verulega vör við gleraugun á nefinu á mér... )
#og hvað ertu gömul? ennþá hress...
*37 úffaði ég, (núna var ég orðin gömul OG skrítin, )
#stígðu hér uppá vigtina gamla skrítna kona sagði hann þá (mér heyrðist hann allavegana segja það)
#$%%$&# Sem sagt núna vildi hann líka vita hvað ég var þung !!! og svo tók hann fram málband og mældi mig og svo tók hann fram klípitöng og kleip í spikið á maganum á mér... ég grét bara, fór svo í bakaríið og keypti mér snúð, stórann með súkkulaði...

Seinni part dagsins var síðan ættarmót jamm þið lásuð rétt ÆTTARMÓT, þá hittir maður einmitt FULLT af fólki sem aðeins sér mann einu sinni á ári og eiga sem sagt eftir að muna eftir mér í heilt næsta ár sem skrítnu gömlu konunni með gleraugun... æði.

Annars ef ég hætti að bulla þá kom mælingin alls ekki svo ílla út og það var verulega gaman á ættarmótinu, þetta er semsagt Hlíðbergsfjölskyldan tengdamömmu meginn, við hittumst árlega í kringum þrettándann, allir koma með gott á borðið og svo er bara borðað og spjallað. Stór hópur saman kominn og bara skemmtilegt.

Núna er búið að sprengja jólin bless með þessari einu sprengju sem við geymdum og við að fara að sofa.... bráðum.


05 janúar 2007

Bland í poka.

Jæja smá lífsmark frá mér,

Síðustu dagar hafa farið í að standa við áramótaheitin mín og hvað gerir maður þá ? jú les nokkrar blaðsíður í bókinni um leyndarmál Heimsins... dugleg stelpa :oÞ

Já og tók áskorun sem birtist í Sjóvá... þorir þú ?
Boot Camp í fimm vikur klukkan 06:30 á þriðjud. og fimmtud. Púúl... byrjum á þriðjudaginn, mæling í fyrramálið (fitu og ummáli) jeminn eini... þið fáið örugglega að fylgjast með! Það eru ss um 17 starfsmenn sem ætla að koma sér í form með því að hlaupa stiga og hamast í bílageymslunni, þvílíkt stuð !!! hlakka mikið til, já ég hlýt að vera biluð.

Síðan á að taka á því huglega líka, erum í framlínunni að byrja á Dale Carnegie námskeiði sem verður á mánudagskvöldum næstu 10 vikur... eða Deil Kannekki eins og Dóra mín sagði... (ha mamma ertu að fara á deil kannekki?) Hef áður farið á slíkt námskeið og bind því miklar vonir við þetta núna, veit hverju ég á von á, en er spennt að sjá hvernig þetta verður sett upp.

Stórskemmtileg keila í gærkvöldi, unnum alla þrjá leikina Gó Sjóvá :)

Í morgun var hringt frá leikskólanum,,, Karen Sif var að hlaupa, skallaði vinkonu og önnur framtönnin er laus, fengum tíma hjá tannlækni, allt virðist í lagi, en fylgjast með næstu dögum, óheppin litla skvísan :(

Sonur fyrrum samstarfsfélaga hjá Eimskip og bróðir skólasystur Dóru okkar dó í fyrradag, hann Jón Ævar Ármannsson. Síðan á aðfangadag höfum við fylgst með líðan hans og hugsað til þeirra daglega á þessum erfiðu tímum, felldum tár í samúð.

Svona liðu dagarnir.

02 janúar 2007

Vetur, kalt, frost, snjór, brrr...

Má til með að deila með ykkur þessum myndum sem mágur minn hann Sigurður Valur yfirvélstjóri á Brúarfossi sendi okkur. Þetta er svona til að minna okkur öll á að það er vetur einhversstaðar þó hann sé ekki alveg hér hjá okkur... kuldalegt er það...

Við hefðum kannski átt að senda þér lúffur Siggi minn ?

01 janúar 2007

Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins


Áramótaheitið:

Verða bara svo miklu betri manneskja!

...til vara...

Hreyfa mig reglulegarara, þeas skipulagðarara.
Lesa bókina sem prinsinn læddi á koddann minn aðfangadagskvöld (sjá titil bloggsins).

Læt þessi duga, því venjulega stend ég ekki við áramótaheitin mín nema mjög takmarkað, hlýt að geta þetta á nýju ári, þetta með bókina er eiginlega sjálfgefið - easy ...hitt ? jahh leyfi ykkur að fylgjast með.