31 desember 2006

Áramót

Jæja þá fer þessu ári að ljúka, svona rétt áður en ég fer í áramótagallann og skrepp í mat til mömmu og pabba vildi ég kasta kveðju á ykkur öll sem gera þetta blogg að veruleika, því án ykkar lesendur góðu væri ég ekki búin að halda við þetta blogg síðan í sumar...

Það er góður siður að líta um öxl og þakka það liðna... margt hefur gerst á árinu og það sem kannski markar þessa litlu fjölskyldu mest er ákvörðunin að byggja kofa í Úlfarsfellinu, það hefur verið þrælspennandi ferli og mjög skemmtilegt, en jafnframt hefur húsmóðirin á þessu heimili fengið reglulega kvíðakast yfir þessu öllu saman og eru allir brúnu bréfpokarnir löngu upppurnir (anda rólega).

Þegar ég byrjaði á þessu bloggævintýri þá vissi ég ekki útí hvað ég væri komin... byrjaði sem fikt og er núna háð því (gott að þetta voru ekki reykingjar eða drykkja). Hef eignast vini á öðrum bloggsíðum sem er bara ótrúlega gaman og vinir mínir og ættingjar kannski haft gaman að því að gæjast aðeins inn í hugarheiminn minn og þannig kynnst annari hlið á mér, veit ekki. Allavegana er áramótaheitið mitt ekki að hætta þessu, eins og einhverri annari fíkn, þannig að Rabbi minn laptoppinn verður ennþá á stofuborðinu og ég að bloggrónast og bulla, sem sagt upptekin ;o) vona að ég geti haldið áfram að vera "skemmtileg" og leyft ykkur að fylgjast með því sem um er að vera í mínu lífi... kannski hef ég frá meiru að segja þegar byggingin er komin meira á skrið...

Kæru vinir nær og fjær...

image hosting

Með kærri þökk fyrir það sem er að líða.

30 desember 2006

Dagurinn í dag...

Vá - hann var hreint yndislegur :o)

Byrjaði á að ég fór til bóndans Gísla á Dalsgarði Mosfellsdal og keypti af honum rósir. Skemmtilegt að fara svona til bóndans, fullt af fallegum rósum og eitthvað svo kósí, ekki í síðasta sinn sem ég heimsæki hann :o)
Verslað sitt lítið af hvurju fyrir næstu daga og svo heim... gera brúðarvöndinn fyrir Bryndísi og barmblómið fyrir Ástþór, baða stelpurnar og gera okkur öll sæt og fín og tilbúin í brúðkaup ársins. Það er nú alltaf gaman að gera skreytingar og brúðarvendi og annað blómatengt, en ennþá skemmtilegra að gera brúðarvönd fyrir einhvern sem maður þekkir, það er alveg spes :o)

Brúðkaupið var síðan kl 17:30, alveg frábær presturinn hann Bjarni í Laugarneskirkju, þar fékk ég heiðurinn að sitja með honum Þór, afskaplega fallegur drengur og svo góður og rólegur og kátur. Þetta var bara ekkert mál. Athöfnin var svo ótrúlega falleg, og presturinn talaði svo fallega til þeirra og Þórs "sem sat hjá ástvini á þriðja bekk" Alveg þriggja vasaklúta móment. (ég notaði tau-bleyjuna hans Þórs)
Veislan haldin í Skólabæ á Suðurgötunni, verulega huggulegt, en við dvöldum nú ekki lengi því mál var að fara með Þór litla heim, eftir smá rúnt í bænum, tókum pínu vitlausa stefnu heim til þeirra og enduðum í miðbænum hele familien, fórum alveg í rúnt gírinn, rúlluðum niður rúðunni og görguðum útum gluggann á þessa sem voru fótgangandi "fáðu þér bíl ræfill" svaka stemmning hahaha...
Fundum síðan litla húsið þeirra á Bragagötunni eftir nokkra hringi, sko við vissum alveg hvar þau eiga heima, en vorum bara að taka því rólega hann Þór svaf svo sætt... en við keyrðum alltaf fram hjá Eldsmiðjunni að það varð að enda með því að þegar við vorum komin í hús þá skaust ég út til að ná í eina svona eldbakaða, maður má bara til. Þau búa svo sætt, Karen var alveg heilluð, "það er allt svo lítið hérna, lítið hús, lítið sjónvarp og lítið rusl..."

Jæja við erum svo komin heim, kristjana sys komin til að leysa okkur af og taka við næturvaktinni.

Svona leið nú dagurinn hjá okkur í dag... einnig má finna lýsingu á deginum á bloggsíðu Dóru dóttur minnar.

Húsfélagsfundur

Vorum að koma af húsfélagsfundi Úlfanna. Mikið skeggrætt, mikið borðað af pizzu ala Eyrún og eiginlega heillri belju slátrað... sko belju af hvítvíni... takk fyrir góða kvöldstund :o)
Ákvarðanir fundarins: Halda áfram að byggja og allt verður sett í botn annan janúar. þe húsið tekið úr jólasaltinu. Góðar stundir.

29 desember 2006

Japl

Hún Viktoría stórvinkona mín Beckham tjáði sig fyrir stuttu (í gær á mbl.is) að hún væri hrædd um að gallabuxurnar hennar myndu ganga af henni dauðri Sjá hér,,,

Ég verð að segja að þetta skil ég vel... það er ekki með heiglum hent að líta vel út í gallabuxum, og alls ekki öllum gefið, þó svo að við hér skytturnar þrjár hjá Sjóvá vorum ekkert feimnar við að sýna hvernig maður á að líta út í flottum gallabuxum... sko ef að við hefðum hallað okkur mikið meira fram þá hefðum við getað dottið framfyrir okkur og hlotið stórskaða af, já kannski bara dáið og hefði þá það slys alveg verið hægt að rekja til gallabuxnanna... ég verð að segja það, hef verulega áhyggjur af því...

28 desember 2006

Hmmmm

Ég held að þetta hafi bara gengið sársaukalaust fyrir sig...

Allt er breytingum háð

Ég er að breyta... ef að bloggið mitt er skrítið þá er það vegna þess að ég er að breyta á því. Svona er nefnilega dæmigerður tvíburi, alltaf að leita að einhverju nýju til að gera dæmið aðeins flóknara... búin að uppgreita fyrir nokkru síðan, en þá er því ekki alveg lokið, nei það er hægt að gera eitthvað aðeins meira og ég verð að prófa það... vona bara að allt fari ekki til (ritskoðað)

Annað... verð að koma þessu frá mér, hvað gerðist með bikarinn sem íþróttamaður ársins þurfti að burðast með af sviðinu, hver bar hvern ? jeminn eini, þetta minnti mig á leikgrind !

27 desember 2006

Heimilisráð...

Frábært ráð fyrir þig ! Ef að sigtið í uppþvottavélinnni er stíflað af mat, ekki nota ryksuguna til að hreinsa út blauta matinn og vatnið sem ekki skolaðist út. Ef þú gerir það þá mun ryksugan hætta að virka og einhver verður mjög pirr og undrar sig á því hvers vegna í veröldinni þú tókst ekki matinn upp með eldhúspappír eða þvíumlíku. Ég meina í alvörunni, af hverju ættir þú svosem að gera það ? Þannig að krossaðu fingur að dýra ryksugan þín mun virka aftur eftir að allir hlutirnar eru þornaðir.
Að öðru, Ég fékk rosa flotta Kitchenaid-hrærivél og -blandara í jólagjöf og dauðlangar til að búa til eitthvað rosa gott, en ég get það ekki því að eldhúsborðið mitt er fullt af litlum ryksuguhlutum sem eru að þorna.
æji þetta er bara bull...

En þetta er ekki bull...
Bryndís frænka mín gerir lítið annað en að gleðja gömlu móðursystur sína, í dag hringdi þessi elska og bað mig að gera fyrir sig brúðarvöndinn :) sniff sniff gleðitár... ohh hvað ég er gömul og meir :)

Var að skoða vef kokku www.kokka.is í dag, vá hvað það er mikið til þar af allskyns sniðugu, eins gott að sleppa mér ekki inn á þá verslun með kredit kortið, bara smá aðvörun, eða er það viðvörun ?

23 desember 2006

Það sem ég vildi sagt hafa...

Þorláksmessa... nei við fórum ekki í bæinn. Fórum þess í stað til tengdapabba og hóstuðum í okkur saltfisk, sko hann og Lilla frænka hósta við hvern bita af vel kæstri skötunni þannig að við vildum ekki vera minni menn og konur og hóstuðum því saltfisknum í okkur. Höfum verið bisí við að ná skötuilminum úr nefhárunum síðan...

*Búin að versla allt fyrir jólamatinn á morgun og líka hina dagana, eða svotil (slæmt væri að eiga það eftir)
*Búin að pakka gjöfunum inn (og hlæja að jólakattartekstanum á blogginu hennar Gerðu...hahaha)
*Búið að skreyta jólatréð,
*Búið að hengja upp allar seríur, keyptum eina í dag í Glóey :o) hún fór í svefnherbergisgluggann, svona líka gassalega fín (erum við nokkuð of sein að bæta við ljósum ?)

Ég held bara svei mér þá að jólin mega koma með Kertasníki í nótt...

Eeennn... það sem ég vildi sagt hafa er:

Kæru blogglesendur nær og fjær
Óska ykkur öllum Gleðilegra jóla,
megi hamingjan hossa ykkur inn í hátíðina.
Kær jólakveðja, MajaG

21 desember 2006

Ó bróðir hvar eruð þér ?

Ákalla hér hinn mikla blogganda, minn hefur yfirgefið mig, vonandi tímabundið, en auglýsi ég hér með eftir nýjum... má vera létt notaður, en þá verður hann að vera öfga skemmtilegur. Muna að ég er bara 35% normal, en 60% skrítin, æji já auglýsi líka í leiðinni eftir 5%... kannski að þau hafi farið með hinum mikla blogganda...

Það er ekkert að gerast, sem er soldið skondin setning, því að það er allt að gerast. Jólin kommon... fór í gær til tengdapabba í bílskúrinn og gerði 5 leiðisgreinar fyrir hann og okkur, því ein fer jú á leiði tengdamömmu. Þetta eru þá þriðju jólin án hennar... alltaf jafn skrítið að hugsa til þess, en tengdapabbi verður aftur hjá okkur þá um jólin og er það bara ánægjulegt :o)

Fann loksins hina fullkomnu gjöf fyrir Karen okkar... Bleikur Henson galli merktu Sollu Stirðu, já já ægileg markaðssetning hjá Magga Skeving, en þetta virkar, mín er mikill aðdáandi Sollu Stirðu og vill allt gera eins og hún, bæði vera liðug og borða fullt af grænmeti, eða íþróttanammi eins og hún kallar það. Þannig að ég veit að hún verður alsæl með æfingargalla eins og Solla Stirða á :o)

Sko ef að ykkur leiðist lesturinn þá verðið þið kæru lesendur bara að hjálpa mér að leita að bloggandanum, mér leiðist alveg jafnmikið og ykkur að þurfa að vera svona leiðinleg. Hann er hávaxin, sterklega byggður, ljós yfirlitum og með afbrigðum fríður, svona eiginlega eins og Herkúles...

ps. ef þú ert að lesa Bryndís mín þá er ég ekki að tapa glórunni og get alveg passað Þór...

19 desember 2006

Bjúgnakrækir kemur í nótt


Níundi var Bjúgnakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnuplaði þar.
Á eldhúsbita sat hann
í sóti og reyk
og át þar hangið bjúga,
sem engan sveik.
Jóhannes úr Kötlum

þegar maður hefur ekkert um að blogga gerist þetta...

You Are 60% Weird

You're so weird, you think you're *totally* normal. Right?
But you wig out even the biggest of circus freaks!

.....og þetta...

You Are 35% Normal

You sure do march to your own beat...
But you're so weird, people wonder if it's a beat at all
You think on a totally different wavelength
And it's often a chore to get people to understand you

18 desember 2006

Pabbi á afmæli í dag

Elsku elsku Pabbi á afmæli í dag. Hann er orðinn 87 ára :o)

Hann kom inní líf mitt þegar ég var aðeins 6 ára skott, var nú ekki alveg á því strax að fá svona kall sem var klárlega að taka hana mömmu frá mér, en með þrautsegju sinni sigraði hann mig og gaf ég honum smá af mér á hverjum degi, við hátíðlega athöfn... kom inn á skrifstofuna hans skreið í fangið á honum og sagði "núna máttu eiga alla þessa hendi" :o)

Síðan fyrir fjórum árum þá gengum við frá ættleiðingu, jebb þá varð ég Guðmundsdóttir loksins, var orðin það löngu í huganum en núna var ég Guðmundsdóttir á pappírum líka. Örugglega stoltasta Marían af eftirnafninu sínu :o)

En sem sagt Pabbi á afmæli í dag, til hamingju Pabbinn minn :o)

17 desember 2006

Söndags-bloggedíblogg

Ástand hefur ríkt á bæ þessum, yfirbloggari hússins hefur ekkert haft að segja og þess vegna ákveðið bara að þegja.

Anna Kristjáns hefur bent mér á að einhverjir jólasveinar sluppu framhjá mér á meðan þessi lægð gekk yfir, vona ég að þeir Þvörusleikir, Pottaskefill og Askasleikir fyrirgefi mér að ég skrifaði ekkert um þá, en örugglega eru þeir sómapiltar eins og bræðurnir sem komu á undan og koma á eftir... td hann Hurðaskellir...



Sjöundi var Hurðaskellir,
-sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér vænan dúr.
Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.
Jóhannes úr Kötlum



jebb mikill sómapiltur...

En hér kemur þá hvað á daga mína hefur drifið síðan sidst... Á föstudaginn gafst mér hálfur frídagur og var hann nýttur með henni Dóru minni og darling Kristjönu sys í jólagjafa-innkaupum. En fyrst fórum við og fengum okkur snæðing á Fridays, enda margsannað að það er ekki gott að versla á tómann maga, að sjálfsögðu var jólabjórinn smakkaður og jamm jamm hann reyndist góður og síðan er miklu skemmtilegra að versla eftir einn kaldann :o) Takk fyrir daginn stelpur.

Vinnufélagar mínir brugðu sér á jólahlaðborð á föstudagskvöldið og hafði ég fyrir nokkru ákveðið að fara ekki með í þetta sinn, ég er staðföst kona og stóð við mitt og hélt kvöldið heima í faðmi fjölskyldunnar, ég veit að þau skemmtu sér glimrandi án mín, eins og þau hefðu gert með mér enda flottur og skemmtilegur hópur á ferð þar :o)

Laugardagur rann upp eins og ekkert hafði í skorist, enda engin ástæða til annars... það var skreytt og svo var bakað, jamm fjórar sortir, er ég þá húsmóðir góð ? jah fjölskyldan gaf mér stimpil eftir að hafa smakkað. Jebb húsmóðir desember mánaðar :o) Núna mega jólin koma...

Sunnudagur, bara leti í dag, æji jú nokkur jólakort sett í umslög, en annars bara tekið því rólega.

Þannig að nú hafið þið það lesendur góðu þe Anna, Gerða, Ingibjörg Jenný, Sylvía, Tinna, Birna, Berglind og Kristjana sys og vonandi einhverjir fleiri...þetta er það sem ég gerði síðan á fimmtudaginn...
hey þetta eru nú bara þó-nokkrir lesendur //(",)\\ og ég hafði þá bara heilmikið að segja.

14 desember 2006

Stúfur hét sá þriðji




Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.
Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.

"Jóhannes úr Kötlum"

13 desember 2006

Mig langar svo að segja...

Við erum að fara að passa... fallegasta Þór í heimi :o) Fyrst er okkur boðið í brúðkaup foreldra hans (Bryndísar frænku og Ástþórs), þau ætla að gifta sig í Laugarneskirkju og okkur er boðið :o) ég er svo hamingjusöm... við megum passa hann Þór í kirkjunni og svo í veislunni og svo förum við með hann heim og höldum áfram að passa, við erum ekki búin að ákveða hvort að við skilum honum, okkur vantar strák nefnilega...

Hengd uppá þráð

Karen svaf uppí í nótt, hún var komin með svo háan hita þessi elska í gærkvöldi að við vildum hafa hana hjá okkur... þannig að ég er núna heima, eins og hengd uppá þráð.

Ótrúlegt hvað henni tekst að taka mikið pláss í rúminu, annars kannski ekki, var hugsað til þess eina nóttina, þegar hún Brella mín hoppaði uppí rúmið til mín og kom sér alltaf þægilega fyrir,,,,
sú gat tekið pláss... þegar ég lagðist á magann þá lagðist hún ofan á bakið á mér, ef á velti mér á hliðina tróð hún sér uppá mjöðmina á mér, skildi aldrei hvernig hún nennti að vega salt þar, enda vissi hún að ef að hún væri þar myndi ég líklega leggjast á bakið og þá var sko hægt að leggjast ofan á mig einhvernveginn... æji hvað ég sakna þess að hafa ekki kisulíf hérna í húsinu,,, það kemur aftur :o)


... feita lata kisa :o)

12 desember 2006

Giljagaur var annar


Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
-Hann skreið ofan úr gili
og skaust í fjósið inn.
Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan
átti við fjósamanninn tal.
"Jóhannes úr Kötlum"

Ég vaknaði í nótt við að Karen kom inn til mín, / ég sendi hana aftur í sitt rúm, erum að reyna að venja hana (og okkur í leiðinni) af því að kúra hjá okkur,,, æji það er svo notalegt að hafa þær uppí, en samt ekki mikið pláss og við vöknum alltaf eins og hengd uppá þráð, stíf og ómöguleg, þannig að ég sendi hana ss tilbaka, var búin að segja henni að hún mætti ekki fara úr rúminu sínu af því að jólasveinninn yrði þá alveg ringlaður og hún mætti heldur ekki fara eftir að jólasveinninn væri búinn að gefa henni þá myndu bara álfarnir taka gjöfina (ok núna eru álfar komnir í spilið... ohmygod hvað ég er hræðileg mamma)

Ég kíkti síðan til hennar í morgun, -ekkert í skónum-,,, þannig að ég spurði ”fékkstu ekkert í skóinn?” syfjuð leit hún á mig teygði sig undir koddan sinn og dró fram bleikann hest, sagði svo syfjulega ”jú hérna...og þetta fæst í Hagkaup” úps klár stelpa...:o/
hún hafði þá falið hestinn undir koddanum fyrir álfunum þegar hún ætlaði að svindla sér til okkar :oD hahahaha, yndisleg :o)

Núna er skottið orðin lasin :o( hún er líklega komin með það sama og ég var með og síðan Dóra... hefði verið betra að vera bara samfó, en það er aldrei svo gott...
Fór í ræktina áðan, gerði böns af magaæfingum, dugleg :o) Dóra passaði á meðan og svo kom ég við á MaggaDóna og keypti þar í matinn handa þeim :o) þær voru alsælar með það.

Þetta var sem sagt barnablogg :o) það verður líka að vera með...

11 desember 2006

Stekkjastaur kom fyrstur


Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.
Hann vildi sjúga ærnar,
- þá var þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
- það gekk nú ekki vel.


"Jóhannes úr Kötlum"

Við eigum von á heimsókn í nótt, öll börn eru sofnuð hér og það vel fyrir löngu síðan.

Við Karen fórum í Kringluna eftir vinnu til að kaupa jólafötin, hún spurði mig; "mamma hvað er klukkan?" "við verðum og það er mjög mikilvægt að muna að fara heim snemma, ég þarf að fara að sofa klukkan átta" (ég elska þennan tíma, innskot móður) við leituðum ss að jólafötum, mamman vildi helst hafa það pils og fallegan bol (praktíkst) sú stutta vildi pífu,blúndu,blóma krúsidúllu kjól "mamma hvernig er það, átti ég ekki að fá að ráða neinu?" (við fórum heim með bleikt pils, pallíettu belti og fallegan bol, sem hún valdi sjálf og var alsæl með, svooo fín)

Prinsinn er búinn að sitja við tölvuna í kvöld, hanna myndina sem fer með jólakortinu í ár, þetta er flott hjá honum... kemur seinna á vefinn, má ekki sýna strax... hehe

Ég er búin að vera glápa á imbann, Greys anatómí og svo úrslit do you think you can dance, hæfileikaríkir krakkar... ýkt kúl og Óg töff...áfram Benji...

Var í skrítnu skapi í vinnunni í dag, sorry þið sem urðuð fyrir barðinu á mér... bara eitthvað löt, verð duglegri á morgun, það var bara mánudagur, og ég er ekkert sérstaklega góð með mánudaga, en núna er að koma þriðjudagur... og góðu börnin fá fallegt í skóinn sinn...

10 desember 2006

Enn einn.



Gleðilegan annan í aðventu :)

Af hverju er þetta talið jólalegt ? Hvað hefur amerískur jólasveinn við stýrið á flutningabíl Kókakóla að gera með íslensk jól ? Komumst við í ”rétta” andann við að horfa á bílana keyra eða við að drekka kók ? Við stelpurnar duttum í jólalestina í fyrra, vorum eitthvað að keyra og sáum fullt fullt af fólki standa og bíða... við urðum forvitnar og ákvaðum að stoppa og bíða líka... vissum ekki alveg eftir hverju og þegar það birtist litum við hvor aðra og sögðum ”er þetta það?”

Mér finnst malt og appelsín miklu meira jólalegt !

Annað, af hverju er svart
í tísku ? ég meina svartar jólakúlur og svört jólatré úr fiðri ? og svartar lengjur og svört kerti í svörtum skreytingum? Hvað er að gerast ? Er ekki nógu dimmt fyrir okkur í skammdeginu að við verðum aðeins að bæta á það með aðeins meira svörtu ? Hvað hefur svart með jólin að gera ? (Annað en að jólakötturinn er svartur, mér finnst að hann eigi að hafa einkaleyfi á litnum...)

Ég gerði skreytingu í gær, með gylltum kúlum og greni og hvítum stjörnum, er ég þá ekki í tísku ?

Er ég að verða voðalega gömul ?

08 desember 2006

Föstudagur stendur fyrir Fun Fun Fun

Í dag var Karen Sif að leika í helgileik í leikskólanum, hlutverk hennar var fjárhirðir, setningin var ”förum beint til Betlehem til að sjá hvað gerst hefur” Stórleikur hjá stelpunni ! Í næstu viku er það Engjaskóli, búnar að sýna prestinum, spurning með Grafarvogskirkju og svo er það bara -Broadway baby...

Komum stutt við í lóðinni okkar á leiðinni í vinnu, já rétt að svindla, til að sjá hvernig þetta lítur út í birtu... nema hvað, það eru komin götuskilti, sko núna getur maður séð hvaða gata er hvar... ok þarf ekki mikið til að gleðja okkur, því hvert skref telur :o)

Kom aftur í vinnuna, hey hey hey, ég vann 1 vinning í rauðvínsleiknum, assgoti skemmtilegur leikur þó ég segi sjálf frá

///(”,)\\\

10 flöskur af eðalvíni, núna má helgin byrja...

...Ooog svona rétt í lokin... þá eru akkúrat 18 ár síðan prinsinn kom á brúna Daddanum sínum, sótti mig í Mosó og bauð mér í bíó, síðan var ekki aftur snúið...


Einelti...

Ég er lögð í einelti... svona meira en venjulega...


Sko - ég verð nú alltaf frekar föl svona yfir veturinn, bara svona dæmigerður íslendingur, hef aldrei verið neitt sérstaklega dugleg við að nota brúnkukrem og vesen, enda yrði ég örugglega röndótt eins og zebrahestur eða flekkótt og bæri þá Búkollu nafnið með réttu... nema hvað að eftir þessi veikindi í þessari viku er ég frekar fölari en venjulega, þannig að í gær skellti ég á mig svona brúnkuklút í andlitið, ég meina það eru takmörk fyrir hvað maður getur boðið fólki uppá, og held ég að það hafi bara tekist ágætlega, það hefur allavegana enginn baulað á eftir mér...


En aftur að eineltinu, núna rignir yfir mig tilboðum um meðferðir gegn fölheitum. Sko í morgun vann ég á núinu 25% afslátt af ... jú brúnkumeðferð ! og svo núna var ég að fá póst frá femin.is um ... jú brúnkumeðferð !

Hefur einhver sent út fréttaskot og mynd af mér ? vill einhver segja mér eitthvað ? Mér skilst að ég geti farið að taka þessu persónulega...

Er til einhver eineltislögga ?

07 desember 2006

Spurning

-Hvort á uppþvottavélin að vera hægra megin eða vinstra megin við vaskinn ?

Við erum í pælingum þessa dagana og verðum að ákveða okkur hvar vaskurinn á að vera staðsettur í nýja eldhúsinu okkar...

æji sorry gæs, get ekki alltaf verið "skemmtileg" :o)

Samt talandi um "skemmtilegt" nennir einhver að útskýra líka fyrir mér húmorinn í Sigtinu sem sýndur er á skjá einum... við gátum sko hlegið að Venna Páer í kvöld, þvílíkir gullmolar sem detta frá honum, en Sigtið...? nei ekki alveg að fatta það...

Kaloríureglur fyrir jólin...

Smá mælikvarði þegar kemur að matarinntekt á komandi hátíð.......
þetta er há-alvarlegt ! maður djókar nefnilega ekki með mat.

1.) Ef þú borðar eitthvað og enginn sér það, hefur það engar hitaeiningar.

2.) Ef þú drekkur ,,diet" gos með súkkulaði, núllast kaloríurnar burt.

3.) Ef þú ert að borða með öðrum, teljast eingöngu þær hitaeiningar sem þú borðar umfram hina.

4.) Matur sem er góður fyrir heilsuna telst ekki með s.s. ristað brauð með kakó, brandý, rauðvín og ostakökur (allt þetta er notað til lækninga (á lystarleysi).

5.) Ef þú umgengst feitt fólk virðist þú grannur, spurning er hvort þú sért ekki bara í röngum félagsskap ef þú ,,ert" feit/ur.

6.) Það sem þú borðar í bíó eða þegar þú horfir a sjónvarp eða video telst hluti af skemmtanapakkanum og telst því ekki með ss. popp og kók og súkkulaði.

7.) Ef þú borðar kökur eða kex, skaltu brjóta eða skera þær, þá leka hitaeiningarnar út.

8.) Það sem þú sleikir af eldhúsáhöldum og óhreinum diskum telst ekki með því það er hluti af matarundirbúningnum.

9.) Hitaeiningar eru í lit matarins, borðaðu grænt. Það er ekki þér að kenna að marsipan er oft litað grænt og ath. brúnt er blandaður litur, ekki náttúrulitur svo allt brúnt telst ekki með ss. súkkulaði, nema það sé hvítt.

10.) Matur sem er frosinn inniheldur ekki kaloríur því kaloría er hitaeining.




06 desember 2006

Heaven and ....

Fyrir einhverjum bloggum síðan nefndi ég að ég væri að hlusta á besta lag í heimi... jæja þá vissi ég ekki alveg hvernig ég gæti boðið ykkur að njóta lagsins með mér, alveg steinbúin að gleyma youtube, en núna er það komið...

Smellið á Heaven og njótið :o)

Annars stutt blogg í dag, hef verið að reyna koma þessari ljótu leiðindar pest úr mér, missti af saumó hjá Guðrúnu á Grandaveginum, ég hefði getað verið þar núna að knúsa dýrin hennar, sjá höllina og borða eitthvað rosalega gott. oj-oj-oj frekar spæld út í sjálfa mig!

-baulaði Búkolla

05 desember 2006

Farinn

Jæja þá vitiði í hverju ég verð um jólin, loksins eftir mikla leit fann ég þann rétta og lét bara vaða í hann…

Kjóllinn

Sorry hann kemur bara í einu eintaki, en góðir vinir geta kannski fengið hann lánaðann.
-baulaði Búkolla

Smá hjálp

Heimaveikindi geta verið þrælfróðleg, ef að maður er ekki sofandi þe. Ég er búin að liggja fyrir framan sjónvarpið í morgun og datt í amerískan þátt þar sem er verið að elda og tala en þar kom þetta fram... sel það ekki dýrara en ég keypti það...

Þekkið þið það að standa í partýi/veislu/hanastéli og tala við einhvern sem þú þekkir ekkert ofsalega vel ? Maður veit í raun ekkert hvað maður á að segja og mómentið verður hálf skrítið… hér eru fimm spurningar sem koma örugglega samtalinu af stað…

# Hvað myndiru vera lengi í sömu gallabuxunum? þe án þess að þvo þær…(ok fer soldið eftir aldri viðkomandi, og þó... gæti orðið fróðlegt.)
# Hvað ertu nísk/ur á?
# Hvaða mat finnst þér best að borða ef að þér líður ílla?
# Hvaða innlendri/erlendri persónu myndir þú helst vilja líkjast?
# Hvað er það sem þú getur alls ekki verið án?

Ykkur er velkomið að svara þessum spurningum hér hjá mér :o)

-Jólagjafaróskin... bókin -Burt með draslið!

Í annað,,, ég fékk sms í gær. Mín elskulega stóra sys kann ekki á komment kerfið hérna... ég er nátturulega agaleg að gera henni þetta, loksins þegar hún var búin að læra á bloggar.is kerfið hjá mér þá flyt ég...sorry sys...þá fór ég að hugsa, kannski er þetta vandamálið, fólkið sem les bloggið mitt kann kannski ekki að setja inn athugasemd....?
Þess vegna...
Leiðbeiningar:
fyrir neðan hvert blogg hjá mér er smá linkur, hann er merktur “Orð í belg” svona til að auðvelda málið...
1) smelltu á “Orð í belg”
2) settu inn orðin þín í belgin sem er í glugganum sem birtist,
3) settu nafnið þitt á viðeigandi dálk og netsíðu ef að þú er með slíka í viðeigandi dálk
4) og svo publish... nokkuð flókið ? Nehh

Hlakka til að fá Orð í belg :o)
-baulaði Búkolla

04 desember 2006

Hvurnig dirfist þeim þarna á Stöðtvö?

Greys anatomy varð að víkja fyrir afskaplega leiðinlegum framhaldsþætti í tveimur hlutum, nei ég horfði ekki á þann þátt og á þess vegna ekki að geta sagt að þessi þáttur var leiðinlegur, en allir þættir sem ýta henni Grey minni aftar í dagskránna eru og verða leiðinlegir. Frekar nennti ég að horfa á grátþáttinn þar sem húsin eru rifin niður og byggð upp aftur, og endalaust reynt að kreista út tár hjá okkur á meðan, á stöðtvöplús.

Af því að ég sofnaði aftur í dag kl 5-6 þá er ég frekar vakandi núna, ennþá með hita, ekki hausverk og er það panódílunum að þakka :o) þannig að ég er að bloggrónast á annara manna síðum og skemmti mér konunglega á þeirra kostnað :o) takk fyrir mig.

Það var enginn gestur númer 1000 hjá mér, á mjög dularfullan hátt stökk talan frá 999 til 1001, Harrý og Heimir hafa verið settir í málið...

Það kom enginn með malt og appelsín eða 70% súkkulaði til mín í dag, en prinsinn minn kom með kjúkling fyrir sjúkling... og franskar fyrir danskar... hvað voru þessar panódílur eiginlega sterkar ???

Áður en ég segi eitthvað sem ég sé eftir ætla ég inn og lesa bók eða eitthvað blað, td Vikuna, á hana einhversstaðar og reyna síðan að sofna. Pant síðan vakna með <=37° hita til að fara í vinnuna á morgun.

-baulaði Búkolla

Mánudagur til mikillar mæðu

Bömmer og fúllt fúllt ! Heima í dag, veik... rauk upp eins og litlu börnin í gærkvöldi og nótt með háan hita, og honum fylgdi hausverkur,,, ekkert annað að, bara hár hiti ! Þannig að ég er í mikilli fýlu í dag. á náttfötunum rétt að skrá þetta niður og vona að allir sem lesa þetta vorkenni mér ægilega... komi í flokkum til að heimsækja mig með malt og appelsín og súkkulaði, svona 70% af því að það er svo hollt samkvæmt nýjustu rannsóknum, þannig að núna borða ég bara það... eldaði pizzu í gær og munaði engu að ég myndi setja 70% súkkulaði ofan á hana, en það væri líklega til að sleppa sér alveg... Een til að hjálpa ykkur af stað þá allir saman nú
"aæhhjji aumingja Maja"

Vildi vekja athygli á öðru, teljarinn minn er að ná 1000... hver verður sú sem rúllar inn í 1000 ?

-baulaði Búkolla frekar veiklulega, en það heyrist samt í henni.

03 desember 2006

-Sunnudagur...

Langaði að skjóta nokkrum myndum á ykkur áður en ég er rokin í afmæli...




hér má sjá afrakstur piparkökumálunar morgunsins,

stoltar systur


og svo að lokum aðventu"krans" blómaskreytisins,

munum að kveikja í kvöld og hugsa fallega til hvors annars :o) Gleðilega aðventu allir saman :o)

-knúsaði Búkolla

02 desember 2006

-Laugardagskvöld, já ég er nokkuð viss...

Í spriklinu í morgun var ég að hugsa, já það gerist af og til að ég hugsa, og þá er um að gera að njóta þess... nema hvað, mér datt í hug þegar ég sá mig eldrjóða og sveitta og eitthvað svo útspriklaða að þegar ég var á snyrtikvöldi hjá Makeup Store um daginn þá heyrði ég útundan mér "hey þetta gloss er svo neutral að ég myndi nota það í ræktinni" ég var um það bil að missa kjálkann niður á bringu, what? nota gloss í ræktinni? ég leit aftur á mig í speglinum... nei fjárinn ekki gloss í ræktinni, þá var mér hugsað til einnar sem stóð fyrir framan spegilinn einhvertímann þegar ég kom í klefann og hún snyrti sig eins enginn væri dagurinn á morgun... það var gloss og hársprey og öll dásemdin, ég horfði á og hugsaði, -hún heppin að vera búin, ég er rétt að byrja... en nei hún var á leiðinni í tíma og ég hélt að hún væri á leiðinni á árshátíð, svakalega flott...
kannski ég ætti að nota gloss ? Allavegana spegilmyndin mín í dag var frekar sveitt og rauð! ekkert gloss, bara rauð, furðulegt hvað ég verð rauð, ja eiginlega fjólublá... en það er önnur saga. Þetta var ég að hugsa í morgun kl 10:37. Á ég bágt?

Talandi um snyrtikvöld, þá finnst mér ekkert leiðinlegt að pæla í svona litum og vali og svoleiðis, hef ekki alveg vaxið úppúr þessu að fara í budduna hjá mömmu og gera mig sæta svona eins og mamma gerði og varð svo flott, hvað það væri nú gaman að starfa við svona, ég meina það eru bara glaðir viðskiptavinir sem koma í snyrtivöruverslun, jeminn sæjuð þið fyrir ykkur svakalega krumpaða manneskju koma í svona verslun,,, "hverskonar þjónusta er þetta? eigið þið ekki rétta rósrauða litinn á þessum varalit?"

Mér varð hugsað til þess einn daginn þegar kona hringdi í mig og bað um tilboð í tryggingar sínar,"ekkert mál" bros :o) og tilboðið farið innan skamms, þegar skilaboð frá skiptiborðinu komu um að hringja í þessa sömu konu, "María hér" ennþá brosandi (en ekki lengi) þegar skammirnar og svívirðingarnar fóru að rigna yfir mig og samtalinu eða á ég að segja eintalinu lauk með "þú getur troðið þessu tilboði uppí bíííb á þér" og síðan skellt á, (flott væri að svara "á ég síðan að senda þér það aftur?" en það má ekki !!! ...) þá alltíeinu langaði mig að vinna einhversstaðar, bara einhversstaðar annarsstaðar. Aldrei ! hafði ég mætt öðrum eins dónaskap...þetta hefði aldrei gerst í snyrtivöruverslun. hahahaha sjáið þið það í anda ? :o)

-baulaði Búkolla
-Föstudagskvöld... nei Laugardagsmorgun ? eða aðfarnótt laugardags... flókið...

Mig vantaði efni til að blogga um þannig að ég ætla að svara síðustu tveimur kommentum í bloggi... sniðug :o)

Anna, Já þegar stórt er spurt, þá er fátt um svör, ég á þó von á einkunum í næstu ja eða þar næstu viku, ég er að vona að sá sem fer yfir þetta fái sér bara einn STÓRANN öllara og verði temmilega kærulaus á góðu tölurnar :o)
Begga my bjútí það er enginn tilgangur að mæta á jólaglögg þegar þú ert ekki þar!

Nóttin er framundan, ég er að fara að sofa og mun vakna hress í fyrramálið til að sprikla í Hreyfingu kl 10:10, síðan verður jólaföndur í Engjaskóla eftir hádegi og svo frítími... :o) Sunnudaginn er piparkökumálun kl 11 í leikskólanum og síðan 7 ára afmæli hjá frænda kl 15 þannig að helgin er nokkuð þétt.

-Annars lenti ég í undarlegu mómenti í dag, og var hálf slegin eftir, ég er svo mikill dúfus. Hún Guðný liðsstjóri kom til mín og bað mig að kíkja með sér á www.keila.is þar birtist mynd af manni sem ég var bara að spila keilu við fyrir minna en mánuði síðan, ferlega hress og skemmtilegur. Hann er dáinn í dag, við Guðný vorum að furða okkur á þessu og ég horfði bara á myndina, þegar ég las nafnið og þá kveikti ég, Gunnar M Sigurðsson, þetta var frændi minn, bróðir afa var pabbi hans, ég vissi ekki af því að hann væri frændi minn þegar ég spilaði við hann og gantaðist við hann fyrir ekki löngu síðan. Núna veit ég það og hann er dáinn. Er þetta ekki skrítið líf ?

Kveð ykkur inn í nóttina...
-baulaði Búkolla